Nauðlending Sifjar samkvæmt reglum

mbl.is/ÞÖK

Á blaðamannafundi Landhelgisgæslunnar í dag fóru áhöfnin og Benóný Ásgrímsson, flugstjóri, staðgengill Geirþrúðar Alfreðsdóttur flugrekstrarstjóra, yfir helstu atriði í sambandi við nauðlendingu TF-SIF í fyrrakvöld.

Í byrjun fundarins sagði Benóný að um venjulegt æfingaflug hafi verið að ræða og að atvikið hafi átt sér stað þegar um tíu mínútur voru liðnar af æfingunni. Á sama tíma og áhöfnin hífði sigmann upp af skipinu Einari J. Sigurjónssyni missti þyrlan afl. Þegar viðvörunarmerki komu upp átti áhöfnin engra annarra kosta völ en að lenda þyrlunni á sjónum. Aðeins nokkrar sekúndur liðu frá því að þyrlan missti afl og þar til hún lenti. Viðbrögð voru samkvæmt verklagsreglum Landhelgisgæslunnar.

Sigurður Heiðar Wiium, flugstjóri TF-SIF, sagði á fundinum að um 15 mínútur hafi liðið frá því að þyrlan lenti og þar til að hægri loftbelgur, sem hélt henni á floti, sprakk með þeim afleiðingum að henni hvolfdi. Engin hætta var þó á ferðum og slasaðist enginn. Gert er ráð fyrir því fyrirfram að þyrlan geti lent í sjónum við slíkar aðstæður, þar sem um er að ræða hættulegasta hluta björgunarflugs þegar þyrla svífur lágt yfir skipi á litlum hraða. Talið er að TF-SIF hafi verið á innan við 10 km hraða atvikið kom upp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert