Þyrla sem nauðlenti fékk sérstakt leyfi til brottfarar frá Ísafirði

Þyrlurnar á Ísafjarðarflugvelli á mánudag.
Þyrlurnar á Ísafjarðarflugvelli á mánudag. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson
Eftir Sigrúnu Birnu Birnisdóttur
sibb@mbl.is

Samkvæmt upplýsingum Flugmálastjórnar Íslands virðist þyrla sem nauðlenti á Grænlandsjökli í nótt hafa verið ein fjögurra þyrlna sem var í hópi sex loftfara sem fengu sérstakt leyfi til að fljúga frá Ísafirði á mánudagskvöld. Fisvél sem var í fylgd með þyrlunni mun hins vegar hafa brotlent á jöklinum en ekki er hægt að lesa úr þeim upplýsingum sem Flugmálstjórn hefur hvort um sömu fisvél er að ræða og var hér á landi með hópnum.

Um er að ræða hóp flugmanna frá franska þyrlusambandinu sem er að fljúga frá París til Oshkosh í Bandaríkjunum í tilefni af hundrað ára afmæli þyrlunnar. Í Bandaríkjunum hugðist hópurinn, sem kallar sig Heliventure 2007, taka þátt í flugsýningunni Airventure 2007.

Hluti hópsins lenti á Ísafirði í fyrradag, en þar sem flugvöllurinn þar er ekki ætlaður til millilendinga skárust flugyfirvöld í leikinn. Sækja þurfti því um undanþágu fyrir brottför frá flugvellinum á þeim grundvelli að þyrlurnar hefðu ekki flugdrægni til Grænlands.

Takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um slysið á Grænlandi en samkvæmt tímasetningum virðist slysið ekki hafa átt sér stað fyrr en eftir millilendingu vélanna á Grænlandi.

Ein af þyrlunum á Ísafjarðarflugvelli á mánudag.
Ein af þyrlunum á Ísafjarðarflugvelli á mánudag. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert