Umferðarlagabrotum fjölgar; mikil aukning á hraðakstri

Hegningarlagabrotum fækkar í júní miðað við sama tímabil á síðasta ári en fjölgar frá árinu 2005, ef horft er á öll árin frá 2003 virðist slíkum brotum þó heldur fækka. Umferðarlagabrotum fjölgar hins vegar og hafa ekki verið fleiri síðustu fimm ár. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum afbrotatölfræði Ríkislögreglustjóraembættisins fyrir júnímánuð.

6.804 umferðarlagabrot höfðu verið skráð í lok júní, þau voru 5.583 árið 2006 en 4.766 árið 2005. Aukningin er því umtalsverð. Fíkniefnabrotum og innbrotum fer þó fækkandi. Fíkniefnabrot í júní voru 171 í fyrra, 176 árið 2005 en voru 134 í júní á þessu ári.

Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna hefur verið að aukast síðustu mánuði og náði hámarki í júní með 2 slík brot að meðaltali á dag. Hraðakstursbrot eru þau langalgengustu af umferðarlagabrotunum, þau voru orðin 4.463 í júní, sem er 27% aukning miðað við sama tíma í fyrra.

198 innbrot voru tilkynnt í júní á þessu ári en það er 20% fækkun miðað við sama tíma í fyrra. Fjöldi tilkynntra líkamsmeiðinga helst svipaður og sömu sögu er að segja um eignaspjöll. Þó má í báðum tilfellum merkja aukningu miðað við júnímánuð ársins 2005.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka