Icelandair hefur áætlunarflug til Toronto næsta vor

Jón Karl Ólafsson forstjóri Icelandair Group
Jón Karl Ólafsson forstjóri Icelandair Group

Icelandair hefur ákveðið að hefja beint áætlunarflug milli Íslands og Toronto í Kanada strax næsta vor. Jafnframt hyggst Icelandair halda áfram flugi til Halifax og skoðar nú möguleika á flugi til borganna Montreal, Winnipeg, Ottawa og St. John´s í Kanada. Ákvörðun um þetta var tekin í framhaldi af þeim samningi um gagnkvæm flugréttindi milli landanna sem íslensk og kanadísk stjórnvöld undirrituðu í Ottawa í síðustu viku, að því er segir í fréttatilkynningu frá Icelandair.

„Icelandair hefur unnið að því ötullega á undanförnum árum og áratugum að koma á samningi um flugréttindi milli Íslands og Kanada og því fögnum við þessum tímamótum mjög. Við höfum beðið lengi eftir því að fá frjálsan aðgang að þessum markaði og erum tilbúin að fara inn á hann með krafti bæði hvað varðar farþegaflug og fragtflug.

Þrátt fyrir miklar takmarkanir á undanförnum árum hefur Icelandair haldið uppi flugi milli landanna og sú viðleitni hefur öðru fremur orðið til þess að setja þrýsting á kanadísk stjórnvöld í málinu. Nú er málið í höfn og það færir okkur mikil og spennandi tækifæri til að þróa leiðakerfi félagsins inn á nýjar brautir", segir Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, í fréttatilkynningu.

Stefnt að flugi allt árið

Stefnt er að flugi Icelandair milli Íslands og Toronto allt árið og að flogið verði 5-7 sinnum í viku. Flugtími er svipaður og til Baltimore/Washington, eða 5:30 klukkustundir. Icelandair flýgur nú um 160 flug á viku til 25 áfangastaða í Norður-Ameríku og Evrópu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert