VG lýsir yfir áhyggjum vegna undirbúnings við álver

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lýsir miklum áhyggjum vegna þeirrar stefnu ríkisstjórnarinnar að heimila að áfram sé haldið undirbúningi álverksmiðja í Helguvík, í Straumsvík, á Húsavík og víðar í skjóli útgefinna rannsóknaleyfa til orkuöflunar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá VG.

„Yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar breytir að mati talsmanna orkufyrirtækjanna engu um þessi framkvæmdaáform, þótt annað hafi verið gefið í skyn af iðnaðarráðherra.

Þingflokkur VG krefst þess að hvorki verði gerðir samningar við stóriðjufyrirtæki né úthlutað rannsóknaleyfum til orkufyrirtækja á meðan unnið er að náttúruverndaráætlun fyrir tímabilið 2008–2012 og lokið við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Sá tími sem ætlaður er til þess verks fyrir árslok 2009 er augljóslega of knappur, ljóst er að Alþingi þarf meira ráðrúm til úrvinnslu og ákvarðana en ríkisstjórnin gerir ráð fyrir.

Fjölmörg atriði styðja þá skoðun að nú beri að staldra við með alla frekari stóriðjuuppbyggingu hérlendis:

Kyótóbókunin um samdrátt í mengun andrúmsloftsins er til endurskoðunar og fullkomið óráð að heimila frekari losun frá stóriðju áður en stefnumótun fyrir tímabilið eftir 2012 liggur fyrir.
Vaxandi óvissa er um þróun orkuverðs á heimsmarkaði, bæði vegna styrjaldarátaka og að olíuframleiðsla heldur ekki í við sívaxandi eftirspurn.
Barátta álhringanna um markaðsyfirráð og gróða hvetur til mikillar varfærni í samskiptum við þá, hvað þá um frekari samninga um orkusölu til langs tíma.

Þingflokkur VG leggur áherslu á nauðsyn þess að horfið verði frá stóriðjustefnunni og telur mikilvægt að þeir sem taka undir þau sjónarmið tali skýrt og láti verkin tala í þeim efnum. Tryggja þarf með lögum heildstæð tök löggjafar- og framkvæmdavalds á orkumálum og að skipulagsákvarðanir um uppbyggingu meiriháttar iðnaðar og orkuframkvæmda séu teknar á landsvísu en ekki af handahófi og vegna skammtímasjónarmiða. Brýnt er jafnframt að Íslendingar móti sér vistvæna og sjálfbæra orkustefnu til langs tíma litið eins og VG hefur lengi talað fyrir og ítrekað lagt fram tillögur um, síðast í stefnuritinu Græn framtíð," samkvæmt yfirlýsingu VG.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert