Það kom ekki öllum mömmunum fjórum í Hveragerði, sem eignast hafa tvíbura á síðastliðnum 11 mánuðum, á óvart þegar í ljós kom að von var á tveimur börnum en ekki einu.
„Þetta var ekki spurning um hvort við myndum eignast tvíbura, heldur hvenær," segir Hildigunnur Hjörleifsdóttir sem eignaðist tvíburana Þórhildi Söru og Þorstein Dag fyrir sex og hálfum mánuði.
„Ég á sjálf tvíburabræður og maðurinn minn á tvíburasystur. Maður beið bara eftir þessu," segir Hildigunnur sem átti fyrir tvo stráka, 5 og 9 ára.
Hinar mömmurnar þrjár, Jórunn Kristjánsdóttir, Berglind Guðnadóttir og Guðrún Lára Magnúsdóttir segja tvíbura hins vegar langt aftur í ættum hjá þeim. Mömmurnar fjórar, sem allar fæddu á Landspítalanum, eru samankomnar heima hjá einni þeirra með litlu krílin sín þegar útsendarar Blaðsins heilsa upp á þær og er þetta í fyrsta sinn sem þær hittast allar. Tvær þeirra, Berglind og Guðrún Lára, sem búa reyndar í sömu götu, voru að eignast börn í fyrsta skipti en Jórunn, sem eignaðist tvíburana Júlíu Nótt og Jökul Dag fyrir 7 vikum, eða þann 1. júní, átti fyrir 3 ára strák og 6 ára stelpu. Tvíburarnir hennar Guðrúnar Láru eru einnig 7 vikna en þeir fæddust 3. júní.
Bæjarbúar hafa að vonum brugðist vel við þessari fjölgun í plássinu og boðið öll litlu krílin velkomin.
„Fólk sem maður þekkti ekki neitt fór að prjóna á tvíburana og svo var allt í einu komin tvíburakerra í Bónus," segir Berglind sem á elstu tvíburana í hópnum, Odd Olav og Auðun Inga en þeir verða 11 mánaða í næstu viku.
Nánar í Blaðinu í dag