Einungis um 80 laxar hafa veiðst í Laxá í Kjós í sumar, síðan veiði hófst fyrir rúmum mánuði. „Við höfum aldrei upplifað ástand á borð við þetta. Við höfum séð ána enn vatnsminni í júlímánuði en þá hefur fiskur verið búinn að dreifa sér um hana alla. Nú er laxinn bara á nokkrum veiðistöðum og kemst ekki upp fyrir Álabakka," sagði Gylfi Gautur Pétursson sem blaðamaður hitti að máli á bökkum Laxár í Kjós í gær. Áin er gríðarlega vatnslítil og segja má að einungis fimm veiðistaðir séu inni, auk neðri hluta frísvæðisins. Þrátt fyrir lítið vatn er mikið af laxi að ganga í ána þessa dagana. Kvíslarfoss er fullur af laxi og stökkva þeir látlaust í fossinn; 20 stukku eina mínútuna þegar mælt var.
Veiðimenn hafa verið að ná einum og einum fiski en veiðistaðirnir eru auðstyggðir, og tökurnar grannar. Einn veiðimannanna sem voru í Kjósinni í gærkvöldi hafði þannig sett í sjö laxa á vaktinni en einungis landað einum. Auk laxanna hafa menn verið að setja í feita og pattaralega sjóbirtinga; einn átta punda og annar níu komu á land í gær. Mikið af fiski liggur í Álabökkum á frísvæðinu og verður þar til rignir. "Þá lenda menn í veislu," sagði Gylfi Gautur.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.