Minni trú á stjórnmálaflokkum

"FÓLK hefur enn áhuga á sínu nánasta umhverfi en heildarlausnir stjórnmálaflokkanna henta því ekki lengur," segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar hefur óhefðbundin þátttaka í stjórnmálum aukist á Íslandi undanfarin ár. Fleiri skrifa undir undirskriftalista, sniðganga vöru og þjónustu og mótmæla en áður. Svipuð þróun á sér stað víða erlendis og eru alþjóðlegir mótmælahópar eins og þeir sem hér eru um þessar mundir til marks um það.

Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn segir að mótmæli þessara hópa séu með öðru sniði en tíðkast hefur hér á landi. Hann bendir á að mótmæli séu orðin hnattvædd. Koma alþjóðlegra mótmælahópa hingað sýni að Ísland sé hluti af alþjóðasamfélaginu og að fylgst sé með því sem hér fer fram.

Borgaraleg óhlýðni

Sumt af því sem alþjóðlegir mótmælahópar hafa tekið sér fyrir hendur hér á landi telst til borgaralegrar óhlýðni. Mikael M. Karlsson, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, segir fólk grípa til hennar þegar það treysti því ekki að fá réttláta niðurstöðu með því að fara í gegnum kerfið.

Hann segir erfitt að alhæfa um áhrif borgaralegrar óhlýðni en þó fari það mjög eftir almenningsáliti hvort hún hafi þau áhrif sem vonast er eftir.

Ef almenningur snýst á sveif með þeim sem brjóta af sér er líklegt að þeir hafi áhrif en annars ekki.

Meðlimir mótmælahóps sem hér eru segjast ætla að mótmæla friðsamlega og leggja áherslu á að í þeirra röðum séu engir atvinnumótmælendur. Þeir segjast finna fyrir miklum meðbyr.

Sjá ítarlega umfjöllun í Morgunblaðinu í dag auk þess sem myndskeið birtist á mbl í gær í tengslum við umfjöllun Morgunblaðins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka