Hjólreiðamaður liggur alvarlega slasaður á gjörgæsludeild LSH í Fossvogi, en hann varð fyrir bifreið á Vesturlandsvegi við Keldnaholt á ellefta tímanum í gærmorgun. Að sögn lögreglu var maðurinn að hjóla í áttina að bænum þegar bifreið, sem ekið var í sömu átt ók aftan á hann með fyrrgreindum afleiðingum.
Lögregla segir að það hafi skipt sköpum að maðurinn var með hjálm þegar óhappið átti sér stað. Tók hjálmurinn mestan hluta höggsins og var hrokkinn í sundur þegar lögreglu og sjúkralið bar að garði. "Hjálmurinn bjargaði miklu og aðrir ættu að láta sér þetta að kenningu verða. Hjálmurinn bjargar því sem bjargað verður, svo einfalt er það," segir varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.