„Athugasemd frá Vegagerðinni vegna fréttar í Morgunblaðinu 21. júlí
Í frétt í Morgunblaðinu laugardaginn 21. júlí er því haldið fram að bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafi ekki enn fengið svör um hvernig næturferðum verði háttað til Vestmannaeyja um Verslunarmannahelgina. Við þessa stuttu frétt, þar sem haft er eftir bæjarstjóra Vestmanneyja, er margt að athuga.
Í tölvupósti þann 3. júlí óskaði Vegagerðin eftir því við Eimskip, samkvæmt beiðni bæjarstjórnar Vestmannaeyja, að farnar yrðu þrjár auka-næturferðir um verslunarmannahelgina í viðbót við tvær aukaferðir sem fastsettar eru í samningi. Þessar þrjár ferðir yrðu miðvikudag 1. ágúst, föstudag 3. ágúst og miðvikudag 8. ágúst. Farið frá Vestamannaeyjum kl 23:00 og frá Þorlákshöfn kl. 02:00 eftir miðnætti.
Eimskip brást vel við og auglýsti þessar ferðir strax á heimasíðu sinni og í fjölmiðlum.
Fimmtudaginn 19. júlí laust eftir hádegi óskaði bæjarstjóri Vestmannaeyja eftir því að bætt verði við tveimur næturferðum, þ.e.a.s. aðfararnótt miðvikudagsins 1. ágúst og aðfararnótt fimmtudagsins 9. ágúst. Krafist var svars eigi síðar en 24. júlí.
Hjá Vegagerðinni þótti þessi beiðni nokkuð óljós, sérstaklega vegna þess að óskað var aukaferðar sem búið var að auglýsa í tvær vikur að farin yrði, þ.e.a.s. miðvikudagsferðin 8. ágúst. Föstudaginn 20. júlí var ítrekað reynt að hafa samband við bæjarstjórann og tókst það loks klukkan 16:30. Kvaðst hann ætla að skýra þessa beiðni nánar eftir helgina.
Í ljósi alls þessa verður að teljast undarleg staðhæfing í umræddri frétt þess efnis að bæjaryfirvöld hafi ekki enn fengið svör um hvernig næturferðum verði háttað um verslunarmannahelgina. Enn undarlegri eru þau ummæli bæjarstjórans að líkja ástandinu við það að Suðurlandsvegi eða Vesturlandsvegi yrði lokað fyrir menningarnótt í Reykjavík.
Ríkissjóður styrkir tvær ferðir á dag með Herjólfi og fimm næturferðir um verslunarmannahelgi, einnig eru tvær flugferðir á dag með Flugfélagi Íslands styrktar. Auk þess er óstyrkt flug frá Bakka í samkeppni við nefndar styrktar ferðir," samkvæmt athugasend frá Vegagerðinni.