Bátur strandar við Skagaströnd

mbl.is/Ólafur Bernódusson

Hraðfiskibáturinn Begga GK 717 strandaði í Vækilvík á Höfðanum við Skagaströnd rétt fyrir klukkan átta í morgun. Einn maður var um borð og sakaði hann ekki heldur gekk hann þurrum fótum frá bátnum og lét vita af strandinu. Björgunarsveitarmenn fóru þegar að Beggu á björgunarskipinu Húnabjörg og einnig á Þórdísi sem er minni björgunarbátur.

Unnu þeir að því að létta Beggu og þétta rifu sem kom á skrokk bátsins við strandið því til stendur að reyna að ná henni á flot á flóðinu síðdegis í dag.

Ekki er ljóst á þessari stundu hvað olli strandinu en það verður að teljast lán í óláni að Begga fór alla leið upp í grýtta fjöruna í víkinni því beggja megin hennar eru klettar og sker sem sennilega hefðu gjöreyðilagt bátinn hefði hann lent á þeim. Stýri og skrúfa bátsins eru greinilega ónýt en að öðru leyti virðist báturinn ekki mikið skemmdur. Björgunarsveitarmenn eru þó með dælu um borð tilbúnir að dæla úr bátnum ef þess þarf þegar fer að flæða undir hann seinna í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert