Björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Gunnar Friðriksson frá Ísafirði, er nú á leið í Rekavík bak Látrum þar sem hraðfiskibátur er strandaður. Einnig er harðbotna björgunarbáturinn Gísli Hjartar á leið frá Bolungarvík á strandstaðinn. Báturinn er farinn að leka en ekki er talin vera hætta á ferðum þar sem maðurinn um borð hefur tök á að koma sér í land.
Einnig var verið að kalla út björgunarskipið Húnabjörg frá Skagaströnd vegna lítils fiskibáts sem strandaði við Spákonuhöfða sem er rétt utan Skagastrandar. Maðurinn af bátnum er kominn í land og hringdi sjálfur eftir aðstoð svo eingöngu er um að ræða verðmætabjörgun, segir í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg.