Embætti ríkislögreglustjóra hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að lögregluembættin greiði ekki kostnað við aukið umferðareftirlit á vegum landsins. Þá kemur þar fram að í fréttum Stöðvar 2, laugardaginn 21. júlí síðastliðinn, hafi verið fullyrt að kostnaður lögregluembætta landsins muni aukast vegna herts umferðareftirlits þar sem embættin greiða embætti ríkislögreglustjóra gjald fyrir hvern ekin kílómetra lögreglubíla.
Þetta sé hins vegar ekki rétt þar sem samningur á milli Samgönguráðuneytisins, Umferðarstofu, Vegagerðarinnar og ríkislögreglustjórans kveði á um að Samgönguráðuneytið greiði fyrir aukið umferðareftirlit lögregluembættanna. Ráðuneytið greiði því að fullu fyrir þann akstur, sem hér sé um að ræða, auk launa lögreglumanna. Enginn viðbótarkostnaður leggist því á lögregluembættin vegna aukins umferðareftirlits.
Yfirlýsingin fer í heild sinni hér á eftir:
Athugasemd frá embætti ríkislögreglustjóra, 23. júlí 2007. Lögregluembættin greiða ekki kostnað við aukið umferðareftirlit Vegna frétta um rekstur lögreglubíla áréttar embætti ríkislögreglustjóra að lögregluembætti landsins bera ekki kostnað sem til fellur vegna aukins umferðareftirlits á vegum landsins.
Í fréttum Stöðvar 2, laugardaginn 21. júlí síðastliðinn, var fullyrt að kostnaður lögregluembætta landsins aukist vegna herts umferðareftirlits þar sem embættin greiða embætti ríkislögreglustjóra gjald fyrir hvern ekin kílómetra lögreglubíla.
Þetta er ekki rétt. Samkvæmt samningi sem gerður var á grundvelli umferðaröryggisáætlunar milli Samgönguráðuneytisins, Umferðarstofu, Vegagerðarinnar og ríkislögreglustjórans þá greiðir Samgönguráðuneytið fyrir aukið umferðareftirlit lögregluembættanna. Ráðuneytið greiðir að fullu fyrir þann akstur og laun lögreglumanna að auki. Enginn viðbótarkostnaður leggst á lögregluembættin vegna aukins umferðareftirlits.
Árið 1998 fól dómsmálaráðherra embætti ríkislögreglustjóra að gera úttekt á bílaflota lögregluembættanna. Skipaður var vinnuhópur með fulltrúum ríkislögreglustjórans, lögreglustjórans í Reykjavík og stjórn sýslumannafélagsins. Þar kom í ljós að bílaflotinn var orðin gamall, bifreiðarnar mikið eknar og viðhaldskostnaður þeirra var mjög mikill. Í fjárlögum árið 2000 var embætti ríkislögreglustjóra falið að taka yfir umsjón og rekstur lögreglubíla landsins. Þetta létti verulega á lögregluembættunum, dró úr kostnaði við rekstur bílanna og tryggði eðlilegt viðhald og endurnýjum bílaflotans og þess búnaðar sem í bílunum er.
Embætti ríkislögreglustjóra sér nú um kaup allra lögreglubíla auk fullkomins búnaðar í þá. Embættið sé um allt viðhald bílanna og rekstur þeirra, þar á meðal eldsneytiskostnað. Þetta tryggir öllum lögregluembættum landsins nýja, örugga og fullkomna lögreglubíla og embættin bera engan aukakostnað vegna viðhalds bílanna.
Bifreiðarnar eru afskrifaðar að mestu á fimm árum. Lögregluembættin greiða embætti ríkislögreglustjóra gjald sem reiknað er út frá eknum kílómetrum til að koma á móts við rekstur og eðlilegar afskriftir bílanna. Vegna þessa fá lögregluumdæmin greiðslur sem ákveðnar eru í fjárlögum og eru þær uppfærðar milli ára.
Þetta fyrirkomulag hefur þótt vel heppnað, enda hefur lögreglubílum fjölgað, meðalaldur bílanna hefur lækkað og akstur þeirra aukist verulega frá því það var tekið í notkun árið 2000.