Rætt um möguleika á að flytja íraska flóttamenn frá Jórdaníu til Íslands

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mbl.is/RAX

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, ítrekaði í heimsókn sinni til Jórdaníu, mikilvægi Jórdaníu í að koma á friði og stöðugleika í Miðausturlöndum. Jórdanska fréttastofan Petra greinir frá þessu á vef sínum í dag. Þar kemur fram að rætt hafi verið um möguleika á að flytja einhverja íraska flóttamenn sem eru í flóttamannabúðum í Jórdaníu til Íslands.

Ingibjörg Sólrún er í vinnuferð til Mið-Austurlanda. Tilgangur vinnuferðarinnar í heild er þríþættur, þ.e. að sjá og heyra um aðstæður á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna og í Ísrael, að kynnast viðhorfum stjórnvalda og fleiri á svæðinu til öryggis- og friðarhorfa og að kynnast flóttamannavanda Íraks frá fyrstu hendi í Jórdaníu.

Petra hefur eftir Ingibjörgu Sólrúnu að þar sem Ísland er að sækjast eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna sé nauðsynlegt að kynna sér stöðu mála í Miðausturlöndum. Ingibjörg Sólrún átti fund með utanríkisráðherra Jórdaníu, Abdul Ellah Al Khateeb, í dag. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að alþjóðasamfélagið gerði sitt til þess að koma á friði á svæðinu og að finna lausn á vanda Palestínumanna.

Að sögn Ingibjargar Sólrúnar skoðaði hún aðstæður flóttamanna frá Írak í Jórdaníu. Sagði hún í samtali við fréttastofuna Petru að Íslendingar séu reiðubúnir til samstarfs hvað varðar málefni flóttamanna frá Írak og rætt hafi verið um möguleika á að flytja einhverja þeirra til Íslands og þá sérstaklega þá sem eru verst staddir.

Frétt Petra fréttastofunnar í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert