Réttindalaus ökumaður á níræðisaldri

mbl.is/Júlíus

Um helgina stöðvaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu för sautján ökumanna sem höfðu ýmist þegar verið sviptir ökuleyfi eða höfðu aldrei öðlast ökuréttindi. Þetta voru fimmtán karlar og tvær konur en þau voru tekin víðsvegar í umdæminu. Ökumennirnir eru á ýmsum aldri en sá elsti í hópnum er á níræðisaldri. Langflestir eru þó á þrítugs- eða fertugsaldri.

Fimm í þessum sama hópi ökumanna reyndust jafnframt vera ölvaðir og tveir eru grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Tuttugu og einn ökumaður var tekinn fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Tveir voru stöðvaðir á föstudag, ellefu á laugardag, sjö á sunnudag og einn í nótt. Sextán voru teknir í Reykjavík, tveir í Kópavogi og Hafnarfirði og einn í Mosfellsbæ. Þetta voru sextán karlar og fimm konur.

Fjórar kvennanna eru um tvítugt en ein er rúmlega hálffertug. Tæplega þriðjungur karlanna er undir tvítugu. Þar af eru tveir 17 ára en annar þeirra var á stolnum bíl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert