„Útséð með sjávarútveginn í bili"

Flosi Jakobsson, útgerðarmaður í Bolungarvík, segir tal þeirra bæjarfulltrúa sem mæla á móti olíuhreinsistöð vera ábyrgðarlaust. „Það er með öllu ábyrgðarlaust að segjast ekki vilja olíuhreinsistöð en benda svo aldrei á neitt annað sem gæti komið í staðinn. Þeir sem eru á móti olíuhreinsistöð verða að koma með eitthvað annað í staðinn“, segir Flosi.

Að sögn Flosa er allt of mikið í húfi til þess að menn geti leyft sér að vera í pólitísku skaki. „Þetta snýst um framtíð Vestfjarða. Við erum á hraðri niðurleið og það er útséð með sjávarútveginn í bili út af niðurskurðinum. Verði ekkert stórt gert innan tveggja ára þá er ég hræddur um að hér eigi eftir að fækka verulega fólki. Það er talað um að vernda náttúruna, en fyrir hverja? Það verða hér engir eftir til að njóta hennar.“ Mörgum spurningum er ósvarað varðandi olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Meðal annars er ekki búið að gera neinar hagkvæmisathuganir. Flosi segir það vera alveg rétt en þangað til annað komi í ljós verði að róa að því öllum árum að koma henni á koppinn.

Nánar er rætt við Flosa á fréttavef Bæjarins Besta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert