Mun færri íbúar eru á hverja lyfjaverslun á Íslandi en hinum Norðurlöndunum samkvæmt upplýsing um frá Lyfjastofnun. Meira en þrefalt fleiri íbúar eru um hvert apótek í Danmörku en hér.
„Það er ljóst að ef lyfjabúðunum fækkaði þá yrði reksturinn hagkvæmari og þá kæmust þær af með lægri álagningu og það myndi lækka lyfjaverðið," segir Páll Pétursson, formaður Lyfjagreiðslunefndar. Hann telur að fækka verði apótekum en segir að það verði ekki gert með lagasetningu úr því sem komið er.
„Með því að segja að það eigi að ákveða miðlægt hvað mörg apótek eru á hverju svæði fyrir sig erum við ekki í því frjálsa samkeppnisumhverfi sem við viljum stefna í," segir Guðni H. Guðnason, framkvæmdastjóri Lyfja og heilsu. Hann vill skera upp það kerfi sem lyfjamálin eru í. „Lyfjalöggjöfin er orðin gömul og úrelt og hana þarf að endurhugsa frá grunni," segir Guðni og segir að auðvelda þurfi fleirum að koma inn á innflutningsmarkaðinn og búa til samkeppnina þar. „Svo getum við skoðað smásöluna," segir Guðni.
Nánar í Blaðinu í dag