Mótmæla aðdróttunum um vigtar- og kvótamál

Stjórn Hafnasambands Íslands hefur sent frá sér ályktun varðandi vigtar- og kvótamál. Segir í ályktuninni að það sé óviðunandi fyrir íslenskar hafnir og starfsmenn hafnanna, að í blaðagreinum sé látið liggja að því að pottur sé brotinn í þessum efnum. Stjórn Hafnasambands Íslands mótmælir þeim aðdróttunum enda eru þær fullkomlega rakalausar og á engum forsendum byggðar. „Að undanförnu hefur átt sér stað umræða um fiskveiðistjórnunarkerfið, kvótamál og aðkomu starfsmanna hafna á Íslandi að vigtun sjávarafla. Á vettvangi íslenskra hafna hefur ítrekað verið fjallað um sífellt auknar og hertar reglur um vigtun sjávarafla og aukna ábyrgð stafsmanna hafnanna, þ.m.t. refsiábyrgð ef útaf reglunum er brugðið.

Starfsmenn hafna hafa lýst yfir áhyggjum sínum af sífellt flóknara regluverki og aukinni ábyrgð án þess að á móti komi endurgjald til hafnanna frá ríkinu.

Hafnir skila til Fiskistofu, undantekningarlaust og innan nokkurra klukkustunda frá löndun, ítarlegum upplýsingum um landaðan afla skipt niður á tegundir.

Þessu hlutverki hafa starfsmenn hafna um allt land sinnt af stakri kostgæfni og samviskusemi enda hafa útgerðarfyrirtæki, sjómenn og Fiskistofa treyst störfum hafnarstarfsmanna í hvívetna.

Engin þau tilvik hafa komið upp sem leiða til efasemda um heiðarleika eða samviskusemi vigtarmanna við vigtun sjávarafla. Það er því óviðunandi fyrir íslenskar hafnir og starfsmenn hafnanna, að í blaðagreinum sé látið liggja að því að pottur sé brotinn í þessum efnum.

Stjórn Hafnasambands Íslands mótmælir þeim aðdróttunum enda eru þær fullkomlega rakalausar og á engum forsendum byggðar," að því er segir í ályktun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka