Lögreglan handtók samtals 13 manns og færði þá á lögreglustöð til skýrslutöku og frekari málsmeðferðar eftir að mótmælendur fóru inn á lokað starfssvæði verksmiðju Alcan í dag. Nokkrir mótmælendanna hlekkjuðu sig við aðalhlið verksmiðjunnar og einnig var óttast að þeir sem höfðu farið inn á svæðið gætu verið í alvarlegri hættu. Var því aðaláhersla lögð á að finna fólkið og koma því í burtu.
Samkvæmt upplýsingum lögreglu var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna málsins um klukkan eitt í dag. Lögreglumenn voru sendir strax á staðinn og kom fljótlega í ljós að nokkrir mótmælendur höfðu hlekkjað sig við aðalhlið verksmiðjunnar og eins að nokkrir hefðu farið inn á lokað athafnasvæði Alcan. Þá þótti fljótlega ljóst að þeir sem fóru inn á svæðið gætu verið í alvarlegri hættu.
Hátt í 20 lögreglumenn tóku þátt í aðgerðinni og gekk þeim fljótt og vel að ná valdi á aðstæðum. Öllum aðgerðum lögreglu á vettvangi var því lokið um klukkan fjögur. Nú standa yfir yfirheyrslur yfir hinum handteknu og getur lögreglan ekki sagt til um hvenær þeim lýkur.