Unglingar á skemmtistöðum án þess að hafa til þess aldur

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar. mbl.is/Brynjar Gauti

Lögreglan í Vestmannaeyjum hafði í ýmsu að snúast í vikunni sem leið og þurfti m.a. að hafa afskipti af nokkrum ungmennum sem voru inni á veitingastöðum bæjarins og höfðu ekki aldur til að vera þar inni. Þá var óvenju mikið um umferðaróhöpp í vikunni og ljóst að í sumum tilvikum hafa ökumenn ekki verið með athyglina í lagi, samkvæmt dagbók lögreglunnar í Vestmannaeyjum.

Eitt fíkniefnamál kom upp um helgina en þá fundust ætluð fíkniefni á Miðstræti og hefur eigandi þess líklega misst það á götuna. Reyndist þarna vera um eitt gr. af amfetamíni að ræða.

Lögreglu var tilkynnt sl. fimmtudag um að eldur væri laus að Dverghamri 42. Reyndist hafa kviknað í þurrkara og varð tjón lítið af völdum elds en nokkuð tjón var vegna sóts. Engin slys urðu á fólki.

Sl. sunnudag var lögreglu tilkynnt um slys í Bjarnarey en 14 ára drengur fékk járngrind í höfuðið þannig að skurður myndaðist á enni hans. Þurfti að sauma 9 spor í enni hans til að loka skurðunum.

Alls voru 6 ökumenn kærðir fyrir að vera ekki með öryggisbeltið spennt í akstri og þá var einn kærður fyrir akstur án réttinda. Þá voru fjórir sektaðir fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu.

Lögreglu var tilkynnt um fimm umferðaróhöpp í vikunni sem leið og var það fyrsta tilkynnt til lögreglu þann 17. júlí sl. þar sem „vespu" var ekið aftan á bifreið á Strandvegi á móts við verslunina Klett. Ökumaður „vespunnar” var fluttur á sjúkrahús en hann varð fyrir minniháttar meiðslum.

Að morgni 22. júlí sl. var lögreglu tilkynnt um að bifreið hafi lent utan vega á Hamarsvegi, vestan við Dverghamar. Bifreiðin mun hafa farið eina veltu og endað á hjólunum. Ökumanninn sakaði ekki en bifreiðin er töluvert skemmd. Ökumaðurinn sem var einn á ferð kvaðst hafa misst stjórn á bifreiðinni með þessum afleiðingum.

Þann 22. júlí var lögreglu tilkynnt um umferðaróhapp á gatnamótum Skólavegar og Hásteinsvegar en þarna hafði bifreið verið ekið inn á Skólaveg af Hásteinsvegi og í veg fyrir bifreið sem ekið var suður Skólaveg. Engin slys urðu á fólki en eitthvað tjón varð á bifreiðunum.

Þá var lögreglu tilkynnt um árekstur á Strandvegi aðfaranótt 23. júlí sl. þar sem bifreið var ekið aftan á kyrrstæða bifreið. Lítil slys urðu á fólki en ökumaður og farþegar í annarri bifreiðinni fann til eymsla í hálsi eftir óhappið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert