„Bakkafjara kann að vera millileikur"

Líkan af Bakkafjöru
Líkan af Bakkafjöru Ásdís Ásgeirsdóttir
Eftir Friðrik Ársælsson

fridrik@mbl.is

Fastlega má búast við að ríkisstjórnin taki ákvörðun um næstu skref í samgöngumálum milli lands og Eyja á föstudaginn. Annars vegar kemur til greina að leggja aukinn þrótt í uppbyggingu Bakkafjöruhafnar og hins vegar að taka jarðgöng milli lands og Eyja til nánari skoðunar.

Vegagerðin fól Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen (VST) að meta kostnað við gerð jarðganga milli Vestmannaeyja og Landeyja og liggja niðurstöður stofunnar nú fyrir. Samgönguráðherra hefur verið að kynna sér þær og mun hann væntanlega tilkynna ríkisstjórninni tillögur sínar hvað þetta varðar á föstudag.

„Þetta eru hærri tölur en allir vonuðust til að heyra. Öllum er ljóst að jarðgöng eru langbesti kosturinn að því er framtíðarsamgöngur til Vestmannaeyja varðar og þetta eru því vonbrigði fyrir alla sem vilja bættar samgöngur á Íslandi," segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, spurður um viðbrögð sín við skýrslu VST. Hann segir að frá fyrsta degi hafi bæjarstjórn viljað fá fullkannaðan besta kostinn, áður en ákvörðun um annað verður tekin. Standi ekki til að fara í framkvæmdir við jarðgöngin er það ósk Elliða að framkvæmdum við Bakkafjöru verði flýtt eins og mikið og kostur er.

„Áætlanir gera ráð fyrir því að framkvæmdum þar verði lokið árið 2010, en í ljósi yfirlýsinga ríkisstjórnar um að flýta verklegum framkvæmdum vegna þorskskerðingarinnar, finnst mér vert að athuga hvort ekki sé hægt að flýta framkvæmdum þannig að árið 2009 verði Bakkafjara klár," segir Elliði.

Ef ríkisstjórnin velur Bakkafjöruleiðina telur Elliði það ekki fela í sér endanlega afgreiðslu á jarðgöngum til Eyja. „Bakkafjara kann að vera millileikur, enda er kostnaður við jarðgöng sífellt að lækka og sjálfur trúi ég því að jarðgöng verði lögð til Eyja fyrr eða síðar."

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert