Sautján ára piltur slapp með skrekkinn þegar vinnubíll sem hann ók hafnaði á umferðarljósum í Kópavogi í gær. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hugðist pilturinn nema staðar við gatnamót en uppgötvaði þá sér til skelfingar að bremsurnar virkuðu ekki. Hann náði að sveigja upp á graseyju en þar hafnaði bíllinn, sem var með kerru í eftirdragi, á umferðarljósum eins og fyrr sagði. Nokkur umferð var um gatnamótin þegar óhappið átti sér stað og þykir því mildi að ekki fór verr.