Algengt er að rusl sé skilið eftir fyrir utan endurvinnslustöðvar Sorpu, íbúum í nágrenni starfsstöðvanna til mikillar mæðu. „Við sjáum alltaf fullt af rusli þegar við förum í göngutúra fyrir ofan húsið okkar," segir Kristjana Jónatansdóttir, íbúi í Jóruseli í Breiðholti. Svæðið sem um ræðir er opið svæði á Vatnsendahæðinni fyrir ofan Seljahverfi. Svo virðist sem fólk hendi rusli á hæðinni þegar Sorpa bs. er lokuð.
„Við höfum séð fólk á lokunartíma Sorpu koma með fullar kerrur af rusli, og sturta svo bara úr þeim rétt fyrir ofan garða okkar ef Sorpa er lokuð. Þegar hvasst er fýkur þetta svo í garðana hjá okkur. En verst er samt hvað þetta er ljótt að sjá, sérstaklega á svona göngu- og útivistarsvæði."
„Það er vel þekkt og ekkert nýtt að fólk skilji eftir rusl fyrir utan endurvinnslustöðvar okkar. Ég segi ekki að það sé daglegur viðburður, en þetta kemur allt of oft fyrir," segir Björn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu bs. Hann tekur undir það að vandamálið sé að fólk skilur rusl eftir þrátt fyrir að stöðvarnar séu lokaðar.
„Fólk virðist halda að Sorpa sé opin allan sólarhringinn. Þrátt fyrir að við séum með upplýsingar um opnunartíma á heimasíðu okkar og í símsvörum, virðast skilaboðin ekki komast til skila."
Björn segir sumt fólk m.a.s. halda að Sorpa sé opin á hátíðardögum. „Það hefur komið fyrir að þegar starfsfólk kemur til vinnu eftir jólafrí taka við því ruslastaflar fyrir utan stöðvarnar - einu sinni var heil eldhúsinnrétting fyrir utan hliðið."
Nánar í Blaðinu í dag