Varað við svikafyrirtækjum

Samtök ferðaþjónustunnar vara við pósti þar sem reynt er að fá fyrirtæki til að samþykkja skráningu í gagnabanka, að því er virðist án endurgjalds, en í smáu letri sem fylgir skilmálum kemur fram að greiða þurfi miklar fúlgur fyrir skráninguna.

Í fréttabréfi SAF kemur fram að reikningar frá fyrirtækinu sem fylgja í kjölfarið koma því óþægilega á óvart. Ef reikningar eru ekki greiddir er skuldurum hótað hörðum innheimtuaðgerðum og ærnum viðbótarkostnaði. SAF ráðleggja fyrirtækjum að greiða ekki slíka reikninga enda ætíð um að ræða undirskrift sem fengin er með ólögmætum hætti.

„Nýjum aðferðum við svikastarfsemi skýtur reglulega upp kollinum og hringingar beint í fyrirtæki eru orðnar algengar. Algengt er að hringt sé frá fyrirtæki sem tilkynnir að það vinni fyrir viðskiptavin sem hafi óskað eftir að vera skráður á Netið með sama nafn og fyrirtækið sem hringt er í, en með öðru léni, t.d. www.nonnabud.com (í stað .is). Á meðan samtalinu stendur er fyrirtækinu boðið að kaupa sjálft umrætt netfang (með endingunni .com). Þeir sem samþykkja það komast að því síðar að þeir greiða margfalt hærra verð en ef þeir hefðu gert þetta að eigin frumkvæði.

Illræmdasta fyrirtækið er European City Guide og þessa dagana er fyrirtækjum að berast póstur frá Europe Business Guide sem er eitt af þessu svikafyrirtækjum. Frekari upplýsingar um þessi fyrirtæki má finna með því að slá þeim upp á vefsíðu Google," að því er segir í fréttabréfi SAF.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert