Þór Jónsson ráðinn til Kópavogsbæjar

Þór Jónsson hefur verið ráðinn í nýtt starf forstöðumanns almannatengsla hjá Kópavogsbæ.

Forstöðumaður almannatengsla Kópavogsbæjar verður í forsvari fyrir stefnumörkun, þróun og skipulagningu á sviði innri og ytri upplýsinga og almannatengsla auk þess sem hann er öllum sviðum og deildum stjórnsýslu bæjarins til aðstoðar og ráðgjafar um hvers kyns málefni á því sviði, samkvæmt tilkynningu frá Kópavogsbæ.

Þór er fæddur árið 1964, býr í Kópavogi og er þriggja barna faðir. Hann lauk prófi frá Blaðamannaháskólanum í Stokkhólmi árið 1991 og hefur sótt námskeið í blaðamennsku og fjölmiðlarétti hér á landi og erlendis. Hann var síðast upplýsingafulltrúi félagsmálaráðuneytisins en hafði áður starfað á fjölmiðlum frá árinu 1985, þar af á fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og NFS í 14 ár, m.a. sem varafréttastjóri í 5 ár.

Þór hefur m.a. annast stundakennslu við Háskóla Íslands í hagnýtri fjölmiðlun (siðareglur/upplýsingalög o.fl.), í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu (siðareglur/upplýsingalög o.fl.), í meistaranámi í blaða- og fréttamennsku (upplýsingalög), flutt fyrirlestra við lagadeild HÍ um fréttaflutning af dóms- og sakamálum og aðgang fjölmiðla að dómstólum og verið leiðbeinandi á námskeiðum tengdum almannatengslum á vegum Icelandair.

Þór hefur unnið ýmis verkefni fyrir Norrænu ráðherranefndina og sat um árabil í stjórn Norræna blaðamannaskólans í Árósum. Auk þess hefur hann gegnt fjölmörgum félags- og trúnaðarstörfum. Þór hefur enn fremur samið og þýtt bækur og leikþætti, t.d. skrifaði hann ævisögu Sigurðar Demetz Franzsonar óperusöngvara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert