Engin jarðgöng til Vestmannaeyja en ferðum Herjólfs fjölgað

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur.
Vestmannaeyjaferjan Herjólfur.

Kristján L. Möller, samgönguráðherra, kynnti í ríkisstjórn í dag skýrslu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. um mat á kostnaði á gerð jarðganga milli Vestmannaeyja og lands. Tillaga samgönguráðherra sem var samþykkt gerir ráð fyrir að í ljósi hins mikla kostnaðar og óvissu vegna jarðfræðilegra aðstæðna við gerð jarðganga verði öll áform um gerð slíkra ganga lögð á hilluna. Jafnframt var samþykkt að semja um 15 árlegar viðbótarferðir með Herjólfi árin 2008 til 2010.

Á blaðamannafundi í dag greindi Kristján frá því að niðurstaða skýrslunnar er að kostnaður við jarðgöng er talinn geta orðið á bilinu 52 til 80 milljarðar króna.

Göng sem yrðu steypufóðruð þrjá km næst Heimaey eru talin kosta 52 milljarða en væru þau steypufóðruð alla 18 km er kostnaður talinn verða 80 milljarðar. Þá kemur fram í skýrslunni að álitamál sé hvort nokkurn tímann geti verið réttlætanlegt að grafa eða reka ,,þetta löng jarðgöng djúpt undir sjó á jafn jarðfræðilega virku svæði og Vestmannaeyjasvæðið vissulega er og dæmin sanna,” eins og segir í samantekt skýrsluhöfunda.

„Tillaga samgönguráðherra gerir einnig ráð fyrir að skrifað verði undir samkomulag um 15 árlegar viðbótarferðir með Herjólfi árin 2008 til 2010 en ferðum Herjólfs hefur verið fjölgað verulega á þessu ári. Samkomulag um viðbótarferðir náðist í samræðum samgönguráðherra og fjármálaráðherra við forstjóra Eimskips í morgun. Með nýjum samningi árið 2005 var kveðið á um 720 reglulegar ferðir á ári auk nokkurra aukaferða. Hefur fjöldi ferða því tvöfaldast í áföngum á síðustu árum," samkvæmt tilkynningu.

Bakkafjöruhöfn tekin í notkun árið 2010

Þingsályktun um samgönguáætlun áranna 2007 til 2010 gerir ráð fyrir því að framtíðarsamgöngur milli lands og Eyja verði með nýjum Herjólfi sem sigli milli Bakkafjöru og Heimaeyjar. Undirbúningur að gerð hafnar í Bakkafjöru felst meðal annars í breytingu á aðalskipulagi Rangárþings eystra og verið er að ganga frá útboðslýsingu fyrir nýja ferju. Hönnun hafnarinnar er hafin svo og sáning á Landeyjasandi. Gert er ráð fyrir að taka megi Bakkafjöruhöfn í notkun seint á árinu 2010, samkvæmt tilkynningu.

Vegagerðin fól í apríl Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. að leggja mat á kostnað við gerð jarðganga milli lands og Eyja og fékk VST ýmsar skýrslur og gögn sem unnin hafa verið um málið á síðustu misserum og árum, bæði fyrir samgönguyfirvöld og Ægisdyr, áhugafélag um gerð jarðganga milli lands og Eyja. Verkefni VST fólst í því að leggja mat á kostnað við jarðgangagerðina á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Ekki skyldi stofna til nýrra rannsókna eða athugana. Samstarfsaðili VST var svissneska verkfræðistofan Pöyri Intra (áður Electrowatt), sem komið hefur að virkjanaframkvæmdum á Íslandi undanfarna áratugi.

Skýrslan var afhent fulltrúum samgönguráðuneytisins og Vegagerðarinnar síðastliðinn þriðjudag og eftir að hafa farið yfir efni skýrslunnar lagði samgönguráðherra tillögur sínar fyrir ríkisstjórnarfund í dag, að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka