Vilhjálmur prins setti í dag heimsmót skáta í Englandi en yfir fjörtíu þúsund skátar alls staðar úr heiminum taka þátt í mótinu. Þar á meðal eru á fimmta hundrað íslenskir skátar en þetta er stærsta hópferð Íslendinga út fyrir landsteinana á skipulagðan viðburð í sögunni. Mótið stendur yfir í tólf daga í Hylands Parks í nágrenni Chelmsford í Essex.
Skátarnir koma frá rúmlega 160 löndum og búa í tjaldbúðum sem ná yfir 300 hektara svæði. Samkvæmt upplýsingum BBC er mótið það stærsta í 100 ára sögu skátahreyfingarinnar.
Von er á allnokkrum þjóðhöfðingjum á heimsmótið. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands kemur þangað 4. ágúst og Karl Gústav Svíakonungur hefur einnig boðað komu sína auk furstans af Liechtenstein og hertogans af Lúxemborg.