Eftir Ylfu Kristínu K. Árnadóttur ylfa@mbl.is
Mikill meirihluti innlendra sem erlendra ferðamanna er tilbúinn að greiða aðgangseyri að vinsælustu ferðamannastöðum landsins, að því gefnu að peningarnir renni til uppbyggingar og viðhalds staðanna. Þetta segir María Reynisdóttir en hún skrifaði mastersritgerð í ferðamálafræði sem fjallaði um gjaldtöku á ferðamannasvæðum.
Í könnun sem hún lagði fyrir 252 innlenda sem erlenda ferðamenn við Gullfoss og Skaftafell árið 2004 kom í ljós að 92% þeirra voru tilbúin að greiða hóflegt gjald sem miðað við gestafjölda ársins 2003 hefði skilað stöðunum rúmlega 100 milljónum.
Fjöldi ferðamanna hefur aukist töluvert síðan þá.
Ekki til að fækka ferðamönnum
Aukinn straumur ferðamanna hingað til lands hefur verið nokkuð í umræðunni að undanförnu og hefur verið stungið upp á gjaldtöku á vinsælustu stöðunum til að takmarka fjöldann. María telur ekki rétt að nota gjaldtökuna til að draga úr fjölda ferðamanna þar sem eitt markmið t.d. þjóðgarða sé að veita fólki aðgengi að náttúrunni og því gæti takmörkun gesta gengið gegn því markmiði. Aðgangseyrinn ætti að nota til að fjármagna viðhald og uppbyggingu þeirra staða sem vantar fjármagn. Að mati Maríu er vissulega takmarkað hve mörgum gestum hver staður getur tekið á móti en það sé engin endanleg tala. Teygst geti á þolmörkunum; því betur sem hægt sé að viðhalda stað þeim mun fleiri gestum sé hægt að taka á móti.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.