Kristinn Aðalsteinsson: Skáldskapur Reynis Traustasonar

Kristinn Aðalsteinsson, sonur Aðalsteins Jónssonar á Eskifirði, hefur sent frá sér yfirlýsingu sem ber yfirskriftina „ Skáldskapur Reynis Traustasonar" en Kristinn segir sig knúinn til að leiðrétta nokkur veigamikil atriði í úttekt Reynis í nýjasta hefti tímaritsins Mannlíf.

„Yfirlýsing frá Kristni Aðalsteinssyni.

Skáldskapur Reynis Traustasonar

Í nýjasta tölublaði Mannlífs er grein eftir Reynir Traustason sem einkennist af útúrsnúningum, rangfærslum, sleggjudómum og hreinum skáldskap höfundarins. Það yrði allt of langt mál að rekja allar rangfærslurnar, en ég sé mig knúinn til þess að leiðrétta nokkur veigamikil atriði.

Í greininni er því ranglega haldið fram að átök hafi einkennt uppskipti í hluthafahópi Eskju. Uppskiptin i voru gerð í góðri sátt allra hlutaðeigandi, um það eru allir sammála. Engu að síður kýs Reynir að draga upp aðra mynd og gera uppskipti fyrirtækisins tortryggileg.

Engar veiðiheimildir hafa verið seldar frá félaginu undanfarin misseri. Þvert á móti hafa veiðiheimildir fyrirtækisins verið auknar til muna og vaxið að verðmætum.

Aðkoma stjórnenda Eskju hefur ávallt miðað að því að auka veg og vegsemd fyrirtækisins og starfsfólks þess. Það var markmið frumkvöðulsins Aðalsteins Jónssonar og því merki hefur verið haldið á lofti við stjórn fyrirtækisins.

Svo virðist sem helsta markmiðið með greinarskrifunum hafi verið að tortryggja og sverta ímynd einstaklinga, þar sem órökstuddum dylgjum er beitt að því er virðist, til þess að auka sölu tímaritsins. Orð Reynis og aðferðir dæma sig sjálf. Engu að síður þykir mér miður að dregin hafi verið upp dökk og skrumskæld mynd af fjölskyldu Aðalsteins Jónssonar og honum sjálfum.

Því fer víðs fjarri að Aðalsteinn Jónson dvelji afskiptur á elliheimili. Öll börn hans standa sameiginlega að umönnun hans og hafa alltaf gert. Hann þarf nú á fullri þjónustu að halda vegna heilsubrests. Sá rógburður að heilsu Aðalsteins hafi hrakað vegna viðskiptanna í Eskju er í hæsta máta ósmekklegur og er algerlega vísað á bug.

Virðingafyllst, Kristinn Aðalsteinsson."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert