Landslið Íslands í fallhlífastökki dvelur nú við æfingar í Kolomna í Rússlandi við undirbúning fyrir þáttöku í heimsbikarmóti í fallhlífastökki sem haldið verður í Stupino í Rússlandi í ágúst. Meðlimir landsliðsins eru Sigurður Jóhannsson, Hjörtur Blöndal, Örvar Arnarson, Tryggvi Jónasson og Skúli Þórarinsson.
Á meðan á æfingum stendur í Rússlandi hefur liðið ráðið margfaldan heimsmeistara í mynsturflugi að nafni Stephan Lipp, sem var meðlimur í Golden Knights til fjölda ára, en þeir voru heimsmeistarar í mynsturflugi í fjöldamörg ár. Að sögn Sigurðar hefur Stephan komið með mikla þekkingu og tækni við þjálfun á liðinu.
Mynsturflug byggist upp á að raða saman á fyrirfram ákveðinn hátt þeim fjölda af fólki sem í stökkinu er. Aðaltilgangur er að ná sem flestum munstrum eins og hægt er á 35 sekúndum. Með í stökkinu er myndatökumaður sem í okkar tilfelli er Hjörtur og tekur hann upp allar æfingar og mynstrum sem liðið nær að raða saman og dæmt er að lokum eftir þeim myndatökum.