Í sumar hefur borið á því að laxar hafi veiðst sem eru með sjúkdómseinkenni á gotrauf. Frést hefur af slíkum tilfellum meðal annars í Stóru-Laxá, Ölfusá, Þjórsá og víðar. „Við höfum orðið heldur betur varir við þetta og það má í raun segja að annar hver fiskur sé með þessi einkenni. Þetta getur verið allt frá því að vera smá þrot í það að vera stór sár sem jafnvel blæðir úr", segir Steindór Pálsson formaður Stangaveiðifélags Selfoss, í samtali við fréttavefinn sudurland.is.
Samkvæmt Sigurði Helgasyni fisksjúkdóma- og gerlafræðingi hafa þau sýni sem komið hafa til rannsókna ekki bent til þess að einhver veruleg hætta sé á ferðum. „Sýkingin virðist ekki vera slæm, en hins vegar er ekkert hægt að fullyrða um stöðu mála fyrr en fleiri sýni koma inn til úrvinnslu. Ég vil hvetja veiðifólk sem verður vart við eitthvað óeðlilegt í löxum að koma með þá til rannsókna á Fisksjúkdómadeild Háskólans á Keldum. Þá skiptir máli að hafa fiskana sem ferskasta og í heilu lagi. En fólk getur síðan fengið fiskana til baka og neytt þeirra, því við þurfum bara innyflin", segir Sigurður, í samtali við sudurland.is.