Laust fyrir klukkan 23:00 í gærkvöldi fór ölvaður maður í sjóinn skammt frá Keflavíkurhöfn. Tveir lögreglumenn og slökkviliðsmaður frá Brunavörnum Suðurnesja fóru á eftir manninum syndandi og náðu honum um 200 metra frá landi. Björgunarsveitin Suðurnes var kölluð út sem kom með bát og sóttu þann ölvaða og björgunarmenn á haf út.
Maðurinn var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja með sjúkrabifreið til skoðunar hjá lækni. Að sögn læknis var maðurinn orðinn það kaldur að hann hefði ekki getað þolað margar mínútur í viðbót í sjónum. Mikil mildi var að sjólag og veður var gott, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Nokkur erill var hjá lögreglunni á Suðurnesjum í nótt og gistu þrír í fangageymslur lögreglunnar sökum ölvunar.