Samtökin "Saving Iceland" krefjast þess að fréttastofa RÚV "birti sannanir fyrir aðdróttunum sínum um að mótmælendur þiggi fé fyrir mótmæli og handtökur," að því er segir í tilkynningu frá samtökunum í gær. Fullyrt hafi verið í fréttum RÚV að mótmælendur á vegum samtakanna fái peningagreiðslur "fyrir að láta handtaka sig."
Í fréttatilkynningu "Saving Iceland" segir ennfremur:
"Þrátt fyrir að talsmaður Saving Iceland hafi mótmælt þessum slefburði harðlega í viðtali við RUV greinir RUV ítrekað frá þessu eins og um staðreynd sé að ræða og þá um leið að það sé sjálfgefið að talsmaður Saving Iceland fari með ósannindi.
Það teljast undarleg vinnubrögð að kvöldið eftir að RUV sendir út þessa "frétt" kýs RUV að taka viðtal í Kastljósi við tvo álitsgjafa sem velta úr sér rakalausum óhróðri um Saving Iceland frekar en að gefa talsmönnum Saving Iceland kost á svara lygum fréttastofunnar í sama þætti.
Saving Iceland krefst þess að RUV birti sönnunargögn máli sínu til stuðnings ellegar leiðrétti fréttina og biðjist tafarlaust afsökunar og það á jafn áberandi tíma og upphaflega fréttin var send út á.
Saving Iceland skorar jafnframt á heimildarmann RUV að gefa sig fram og standa fyrir máli sínu, hvort sem hann starfar hjá RUV, Athygli (óneitanlega er rógburðurinn ansi keimlíkur fyrri rógsherferðum þessa fyrirtækis gegn íslenskum náttúrverndarsinnum), Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur, Rio Tinto-ALCAN, ALCOA eða Century-RUSAL.
Að lokum vill Saving Iceland benda á að hefði RUV unnið heimavinnuna sína betur hefði fréttastofan fundið grein frá 19. júlí á www.savingiceland.org þar sem greint er opinskátt frá því hvernig samtökin eru fjármögnuð og í hvað fjármununum er eytt.
Væri óskandi að fréttastofa RUV skoðaði sinn gang betur áður en hún lætur nota sig sem handbendi í jafn lágkúrulegri rógsherferð."