Kristinn Þorleifur Hallsson óperusöngvari andaðist á Hrafnistu í Hafnarfirði aðfaranótt 28. júlí sl., 81 árs.
Hann var fæddur 4. júní 1926 í Reykjavík, sonur hjónanna Halls Þorleifssonar yfirbókara og Guðrúnar Ágústsdóttur söngkonu. Kristinn hóf tónlistarnám við Tónlistarskólann í Reykjavík 1937. Hann brautskráðist frá Verzlunarskóla Íslands 1945.
Kristinn fór til náms við Konunglega tónlistarháskólann í London (Royal Academy of Music) 1951 og lauk þaðan burtfararprófi og Licenciate-prófi 1954. Hann tók þátt í tónleikum frá 1945 og í óperusýningum í Þjóðleikhúsinu og víðar, kom fram á fjölda tónleika hér á landi og erlendis m.a. í Evrópu, Ameríku og Asíu. Hann fór m.a. í söngferðir sem einsöngvari karlakóra.
Kristinn stundaði tónlistarkennslu frá 1954 og vann við skrifstofustörf að undanskildum námsárunum erlendis. Hann var ráðinn stjórnarráðsfulltrúi við menntamálaráðuneytið 1970.
Kristinn var lengi í forystu Nemendasambands VÍ, sat í stjórn Félags íslenskra einsöngvara og einnig Félags íslenskra leikara og var í stjórn Anglia. Hann var sæmdur Riddarakrossi fálkaorðunnar 1. janúar 1978. Ævisaga hans, Góðra vina fundur, kom út 1997 og tvöfaldur geisladiskur með einsöng hans, Kristinn Hallsson bassbaritone, kom út 2002.
Eiginkona Kristins var Hjördís Þorbjörg Sigurðardóttir (d. 1983). Eignuðust þau fjögur börn og lifa þrjú þeirra föður sinn.