Andmæla flutningi þjóðvegar 1 um Mýrdal

mbl.is/Jónas Erlensson

Stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðurlands hefur sent frá sér ályktun vegna samþykktar sveitarstjórnar Mýrdalshrepps um flutning þjóðvegar 1 valda verulegum óafturkræfum breytingum á þessum svæðum, einkum þó Víkurfjöru, Reynishverfi, ræktunarlöndum bænda og votlendinu við Dyrhólaós.

„Ályktun frá Náttúruverndarsamtökum Suðurlands vegna samþykktar hreppsnefndar Mýrdalshrepps, dags. 28.06.2007, um breytta legu þjóðvegar 1 um Mýrdal.

Samkvæmt ákvörðun Mýrdalshrepps um breytingu á aðalskipulagstillögu er gert ráð fyrir jarðgöngum og nýrri veglínu þjóðvegar 1 um Mýrdal þannig að þjóðvegurinn liggi vestur eftir Víkurfjöru við suðurjaðar Víkurkauptúns, vestan þess við Blánef í göngum gegnum Reynisfjall, þaðan liggi þjóðvegurinn í gegnum ræktunarlönd bænda í Reynishverfi og eftir bökkum Dyrhólaóss að norðan, þ.e. um votlendi og á jaðri friðlýstra náttúruminja, síðan í göngum gegnum Geitafjall og þar um ræktað land sunnan Ketilsstaða.

Í áliti stjórnar Náttúruverndarsamtaka Suðurlands (NSS) um þetta mál 21. nóvember 2005 var bent á að Mýrdalur er mjög landþröngt hérað, en jafnframt eru svæði þau sem tillögur um nýja veglínu snerta mjög verðmæt frá náttúrufarslegu sjónarmiði, bæði á landsvísu en ekki síður á alþjóðavísu. Ströndin, sjávarhamrarnir, sjávarleirurnar, ósinn, fuglalífið, gamla þorpið í Vík og hin fornu byggðahverfi sveitarinnar eru eftirsótt til útivistar, ljósmyndunar og náttúruskoðunar, og tugir þúsunda ferðamanna sækja þetta svæði þess vegna á hverju ári. Mörg kennileiti, svo sem Víkurfjara, Reynisdrangar og Dyrhólaey eru þekkt um allan heim. Dyrhólaós, leirur hans og votlendi hafa mikla þýðingu fyrir fjölbreytt fuglalíf árið um kring, en einkum þó á vorin og fram á haust. Svæðið hefur því ómetanlegt náttúruverndargildi en ekki síður gífurlegt efnahagslegt gildi fyrir atvinnulíf og ferðaþjónustu, bæði í Mýrdal og í landinu almennt. Líta ber á það sem forgangsverkefni í skipulagsgerð að vernda þessi svæði gegn hverskonar raski og óafturkræfum framkvæmdum.

Stjórn NSS telur ljóst að samþykkt sveitarstjórnar Mýrdalshrepps um veglínu muni, ef til kemur, valda verulegum óafturkræfum breytingum á þessum svæðum, einkum þó Víkurfjöru, Reynishverfi, ræktunarlöndum bænda og votlendinu við Dyrhólaós.

Stjórn NSS telur nauðsynlegt að breytingar á samgöngumannvirkjum lúti í senn markmiðum um náttúruvernd, öryggi og langtíma hagkvæmni, og gerir þá kröfu að til grundvallar ákvörðunum stjórnvalda liggi faglegt mat á þessum þáttum. Stjórn NSS telur því ótímabært að ný veglína fyrir þjóðveg 1 sé sett í aðalskipulagstillögu fyrr en gerðar hafi verið athuganir á annars vegar úrbótum á núverandi veglínu og hins vegar öðrum valkostum, með tilliti til (1) umhverfisáhrifa, (2) kostnaðar og umferðaröryggis, (3) efnahags- og félagslegra áhrifa á landnytjar, landbúnað og ferðaþjónustu (4) og áhrifa breytinga á ímynd og ásýnd svæðisins," að því er segir í ályktun NSS.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert