Íslendingar og Indverjar í samstarf á sviði sjávarútvegs

mbl.is

Sendiherra Íslands á Indlandi, Gunnar Pálsson, og ráðuneytisstjóri sjávarútvegsmála í landbúnaðarráðuneyti Indlands, frú Charusheela Soni, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um samstarf Íslands og Indlands á sviði sjávarútvegsmála.

Í yfirlýsingunni er lýst vilja til að auka sjávarútvegssamstarf ríkjanna m.a. á sviði rannsókna, fiskveiðistjórnunar, fiskeldis, fiskvinnslu og markaðssetningar sjávarafurða. Gert er ráð fyrir að komið verði á beinu samstarfi viðeigandi sjávarútvegsstofnana á Íslandi og Indlandi og auknu samstarfi vísindamanna og sérfræðinga á sviði sjávarútvegs. Þá kveður viljayfirlýsingin á um að stjórnvöld á Íslandi og Indlandi setji á laggirnar sameiginlegan vinnuhóp til að fjalla um samstarfið, meta árangur þess og setja því nánari markmið.

Indland er þriðja stærsta sjávarútvegsríki heims með tilliti til heildarafla, en á árinu 2004 nam hann 6,0 milljónum tonna eða um 5% af heildarafla á heimsvísu. Um ellefu milljónir manna starfa að sjávarútvegi á Indlandi og hlutdeild Indlands í heimsviðskiptum með sjávarafurðir nemur um 2,4%. Rækjur eru helsta útflutningsafurð Indlands í sjávarútvegi, en á meðal annarra tegunda má nefna smokkfisk, makríl og vatnakarfa, að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins.

Stærstu markaðir fyrir indverskar sjávarafurðir eru ríki Evrópusambandsins, Japan, Bandaríkin og Kína, og hefur útflutningur til þessara ríkja aukist verulega á undanförnum árum, bæði að magni og verðmæti.

Umtalsverðir vaxtarmöguleikar eru í sjávarútvegi á Indlandi, en greinin bíður þess að tileinka sér nýjustu tækniframfarir, auk þess sem fiskveiðiauðlindir, bæði til lands og sjávar, eru vannýttar. Indversk stjórnvöld hafa lýst því yfir að nútímavæðing land- og sjávarnytja sé eitt meginverkefni þeirra á komandi árum. Binda indversk og íslensk stjórnvöld vonir við að viljayfirlýsingin ryðji braut fyrir nánara samstarfi ríkjanna um að nýta þau tækifæri sem frekari þróun sjávarútvegsins hefur í för með sér, samkvæmt tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert