Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur skipað fimm manna stjórn Tryggingastofnunar ríkisins.
Í stjórn Tryggingastofnunar ríkisins eru Benedikt Jóhannesson, formaður, Karl V. Matthíasson, varaformaður, Margrét S. Einarsdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir og Sigursteinn Másson. Varamenn í stjórn Tryggingastofnunar eru: Bryndís Friðgeirsdóttir, Svala Árnadóttir, Elsa Ingjaldsdóttir, Signý Jóhannesdóttir og Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir.
Samkvæmt lögum nr. 100/2007 skipar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra stjórn Tryggingastofnunar ríkisins (TR) að loknum alþingiskosningum. Ráðherra setur stjórninni starfsreglur.
Hlutverk stjórnarinnar er að hafa eftirlit með starfsemi TR og gæta þess að rekstur hennar sé innan ramma fjárlaga. Stjórnin staðfestir sömuleiðis skipulag stofnunarinnar, starfs- og fjárhagsáætlun hvers árs og markar henni stefnu. Stjórn TR tilnefnir sömuleiðis fulltrúa Tryggingastofnunar í samninganefnd samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, að því er segir í tilkynningu.