Húsið Ingólfur við Tryggvatorg á Selfossi var tekið af grunni sínum um miðnætti og flutt um set í miðbæ Selfoss. Það stendur nú til bráðabirgða fyrir neðan leikhúsið við Sigtún. Ingólfur var byggður 1926 og var 7. húsið sem reist var á Selfossi sem þá var hin nýja byggð við Ölfusárbrú.
Það var Guðlaugur Þórðarson frá Vatnsnesi í Grímsnesi og kona hans Guðríður Eyjólfsdóttir frá Hvammi í Landsveit sem reistu húsið. Húsið var smíðað hjá Dvergi í Hafnarfirði og kom austur tilhöggið. Sigmundur Stefánsson á Eyrarbakka var yfirsmiður.
Vel gekk að flytja Ingólf um set en það var Tyrfingur Halldórsson kranamaður hjá JÁ-verki sem annaðist hífinguna og Árni Leósson byggingameistari stýrði flutningnum.
Eigendur Ingólfs hugsa því stað í götumynd eldri húsa við neðanvert Sigtún en þar standa húsin Núpur sem hýsir veitingastaðinn Kaffi-krús og húsið Staður sem er reisulegt íbúðarhús. Neðst í götunni er síðan gamli Iðnskólinn þar sem Leikfélag Selfoss starfrækir leikhús. Unnið er að mótun skipulagshugmynda á þessu svæði þar sem unnið verður út frá þeirri gömlu götumynd sem fyrir hendi er.