Veftímaritið Grist hefur valið Reykjavík „grænustu borg í heimi"; þ.e. þá borg þar sem yfirvöld eiga mest lof skilið fyrir að stuðla að vistvænu og hreinu umhverfi. Blaðamenn Grist telja borgaryfirvöldum það til tekna að settir hafa verið strætisvagnar á göturnar sem ganga fyrir vetni, og að hafa lýst því yfir að fyrir árið 2050 verði hætt að nota orkugjafa úr kolum, olíu og gasi. Þá er bent á það að hiti og rafmagn borgarbúa sé framleitt með vistvænum hætti.
„Ég hef ekki séð þessa niðurstöðu, en fagna auðvitað þessum fréttum," segir Gísli Marteinn Baldursson, formaður umhverfisráðs Reykjavíkurborgar. „Þetta er hins vegar góð áminning um að það er ekki sjálfgefið að Reykjavík verði áfram vistvæn í hugum fólks. Það eru teikn á lofti um að ímyndin haldist ekki nema við gáum að okkur."
Gísli Marteinn segir mikla bílanotkun vera mestu ógn sem steðji að umhverfi borgarinnar, enda séu öll hús í Reykjavík hituð og lýst með endurnýtanlegum orkugjöfum öfugt við bílana. „Því höfum við ráðist í stærsta átak sögunnar til að fjölga farþegum almenningssamgangna, og í hin svo kölluðu Grænu skref sem kynnt voru fyrr í sumar."
Nánar í Blaðinu