Snjóaði í 15° hita svo jörðin varð alhvít

Svartur sandurinn við Mælifell var hulinn hvítu teppi um stund …
Svartur sandurinn við Mælifell var hulinn hvítu teppi um stund eftir snjókomu á laugardaginn. Ljósmynd Ingibjörg Eiríksdóttir

Þrátt fyrir að sumarblíðan hafi verið með eindæmum í ár og Íslendingar löngu orðnir sólbakaðir skyldi enginn gleyma því að veðráttan á Íslandi er óútreiknanleg og hin kalda undiralda er sjaldnast langt undan. Þetta mátti Jónas Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fjölva útgáfu, reyna þar sem hann var á ferð um Fjallabak Syðra síðastliðinn laugardag ásamt fríðu föruneyti í hlýju veðri þegar skyndilega byrjaði að snjóa, öllum að óvörum.

"Við vorum þarna inni við Strút og vorum að þvælast, það voru búnir að vera smá skúrir en samt sól þannig að maður var bara á stuttbuxum. Ég hugsa að það hafi verið á bilinu 12-15° hiti," segir Jónas. "Svo gerist það um miðjan dag að það byrjar allt í einu að snjóa alveg eins og ég veit ekki hvað, þétt og mikil snjókoma." Svo gerist það um miðjan dag að það byrjar allt í einu að snjóa alveg eins og ég veit ekki hvað, þétt og mikil snjókoma." Að sögn Jónasar var snjókoman algjörlega staðbundin við Mælifellssand og varð til að mynda engin úrkoma, hvorki snjór né rigning, við skálann Strút sem þó er aðeins í um 6 kílómetra fjarlægð. "Ég fór á flakk um svæðið yfir helgina og það varð enginn var við snjó nema þeir sem voru staddir nákvæmlega þarna á mjög litlu svæði," segir Jónas, sem varð mjög undrandi yfir þessum veðrasviptingum í sumarfríinu.

Ferðamönnum til nokkurs léttis hvarf vetrarhamurinn fljótt þegar júlísólin tók að skína á ný. "Jörðin varð alhvít á tæpum hálftíma, þetta hafa verið svona 3 til 5 millimetrar," áætlar Jónas, "en eftir rúman hálftíma í viðbót var allt bráðnað og jörðin orðin svört aftur. Þetta var asskoti magnað."

Að sögn Björns Sævars Einarssonar veðurfræðings snjóar reglulega á hálendinu þótt hásumar sé, en þó megi teljast óvenjulegt að það sé með þessum hætti, þ.e. svo snögglega og staðbundið á svæði þar sem annars er töluverður lofthiti. Hann telur líklegast að þarna hafi orðið mikið niðurstreymi úr skúraskýi svo frostmarkshæð hafi lækkað og snjórinn ekki náð að bráðna áður en hann náði niður og því hafi orðið nokkurs konar haglél.

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert