Sjávarheimar er nafn á einkahlutafélagi í eigu Sandgerðisbæjar sem var nýlega stofnað til að kanna möguleika á að reist verði stórt og veglegt safn í bæjarfélaginu sem m.a. sérhæfi sig í söfnun og sýningu dýra úr lífríki norður Atlantshafsins. Þetta kemur fram á fréttavefnum www.245.is, sem er tileinkaður lífinu í Sandgerði.
Þar segir að fagaðili hafi verið ráðinn til að sjá um verkstjórn og er undirbúningsvinna vel á veg komin.
Fram kemur að hópur á vegum Sjávarheima hafi farið til Danmerkur og Þýskalands dagana 29. maí til 2. júní 2007. Markmið ferðarinnar var að skoða sjávardýrasöfn og afla alhliða upplýsinga um uppbyggingu og rekstur slíkra safna, með hliðsjón af þeirri hugmynd og markmiði að koma á fót stóru sjávardýrasafni í Sandgerðisbæ.
Þá segir að ef allt gangi eftir sé stefnt að því að hefja framkvæmdir árið 2008. Fyrirhuguð staðsetning safnsins er fyrir neðan Sjávargötu.