Ungir sjálfstæðismenn lögðu fram gestabók hjá tollstjóranum í Tryggvagötu í morgun og buðu þeim, sem telja sig hafa ástæðu til þess að snuðra í upplýsingum um samborgara sína, tækifæri til þess að skrá nafn sitt og upplýsingar um hvaða gögn þeir hafa skoðað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SUS.
„Með því að skrá nafn sitt sjálfviljugir í þessa gestabók geta lesendur skattskráa undirstrikað að þeir sjálfir skammist sín ekki fyrir að fletta upp tölum er varða samborgara sína sem fá engu ráðið um birtinguna. Þeir sem telja eðlilegt að mega skoða slík gögn um náungann hljóta að fagna því ef annað eins gagnsæi ríkir um þeirra eigin gjörðir.
Ungir sjálfstæðismenn hafa um langt árabil viljað vekja fólk til umhugsunar um réttmæti þess að stjórnvöld brjóti svo freklega gegn friðhelgi einkalífsins. Ungir sjálfstæðismenn telja að vitræn rök fyrir þessari framkvæmd séu fá og öllum þeim markmiðum, sem gefin eru sem ástæða hennar, mætti ná með öðrum og geðfelldari hætti.
Opinber birting álagningaskráa hefur ýmist verið rökstudd með vísan til skattaeftirlits og rannsókna, svo sem á launamun kynjanna. Ungir sjálfstæðismenn hafna því með öllu að framlagning persónuupplýsinga, með þeim hætti sem tíðkast hefur að hálfu stjórnvalda, sé réttlætanleg á grundvelli þessara markmiða.
Fyrri rökin, sem snúa að skattaeftirliti, byggjast á þeirri ógeðfelldu hugmynd að stjórnvöld egni borgaranna til þess að stunda njósnir um hver annan til þess að koma á framfæri ábendingum um hugsanleg lögbrot eða grunsamlega hegðun. Þetta viðhorf stjórnvalda hlýtur að teljast fráleitt í siðuðu samfélagi.
Hin rökin, sem snúa að gagnavinnslu, eiga augljóslega ekki við þar sem skattayfirvöld geta látið vísindamönnum í té ópersónugreinanleg gögn til þess m.a. að rannsaka launamun kynjanna. Það er af og frá að ætla að vísindalega gagnlegar niðurstöður fáist ef valin eru af handahófi nöfn tiltekinna einstaklinga til slíks samanburðar.
Mikilvægt er að Alþingi bindi sem fyrst enda á þá ósvinnu sem opinber birting álagningaskráa er. Ungir sjálfstæðismenn binda miklar vonir við að meirihluti náist fyrir þessu máli á komandi þingi og að lagabreytingartillaga sem Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður hefur ítrekað lagt fram í þessa veru, verði lögð fram að nýju og hljóti efnislega meðferð og afgreiðslu," að því er segir í tilkynningu frá SUS.