Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings banka, var með að jafnaði 64,9 milljónir króna í skattskyldar tekjur á mánuði á síðasta ári, samkvæmt niðurstöðum Frjálsrar verslunar. Tekjublað tímaritsins kom út í dag. Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, var með 16,6 milljónir á mánuði samkvæmt útreikningum blaðsins.
Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis, var með 15,4 milljónir króna að jafnaði í tekjur á mánuði, Jón Sigurðsson, aðstoðarforstjóri FL Group, var með 14,5 milljónir á mánuði og Ólafur Helgi Ólafsson, framkvæmdastjóri Lýsingar, var með 13,6 milljónir króna. Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, var með 11,8 milljónir á mánuði að mati Frjálsrar verslunar. Vilhelm Róbert Wessmann, forstjóri Actavis Group var með tæpar 11,8 milljónir króna í mánaðarlaun samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar.
Í blaðinu eru birtar upplýsingar um tekjur 2.500 einstaklinga, sem reiknaðar eru út frá útsvari þeirra eins og það birtist í álagningarskrám. Blaðið tekur fram að um sé að ræða skattskyldar tekjur á árinu 2006 og þær þurfi ekki að endurspegla föst laun viðkomandi og þar séu heldur ekki fjármagnstekjur taldar með.
Eins og fram kom á Fréttavef Morgunblaðsins í gærmorgun greiðir Hreiðar Már greiðir hæstu opinberu gjöldin í umdæmi skattstjórans Reykjavík, samkvæmt álagningarskrá sem lögð var fram í gærmorgun. Greiðir Hreiðar Már rúmar fjögur hundruð milljónir króna en Hannes Þór Smárason, forstjóri FL Group greiðir tæpar 377 milljónir króna.