Iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra hafa sammælst um að leggja til við ríkisstjórnina að 1.200 milljónum króna af skuldum Byggðastofnunar verði aflétt. Iðnaðarráðherra greindi frá þessu á Ísafirði í dag þegar Nýsköpunarmiðstöð Íslands tók formlega til starfa.
Einar Karl Haraldsson, aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar, segir þetta hafa þá þýðingu að Byggðastofnun hafi fjárhagslega burði til þess að aðstoða þau fyrirtæki sem verða fyrir bússifjum vegna niðurskurðarins á þorskaflanum. Þetta er því liður í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar til styrktar atvinnulífi í sjávarbyggðunum.
Einar segir að þessar aðgerðir muni auðvelda bankastofnunum að koma að þessu máli. Ríkisstjórnin hefur rætt við viðskiptabankana um að þeir teygi sig sömuleiðis til móts við þau fyrirtæki sem sjá fram á mikinn samdrátt.
Auk þess hafa iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra að sammælst um það að leggja til við ríkisstjórnina að á árunum 2008 og 2009 verði veitt 100 milljónum kr., hvort árið, til atvinnuskapandi aðgerða, og þróunarstarfs í skilgreind þróunarverkefni hjá atvinnuþróunarfélögunum.