ylfa@mbl.is
„Veðrið hefur mikil áhrif á ferðalög Íslendinga og hefur alltaf haft," segir Sigurður Helgason, verkefnastjóri á umferðaröryggissviði Umferðarstofu, en veðurspáin fyrir verslunarmannahelgina lofar ferðamönnum ekki góðu. Spáð er töluverðri rigningu og roki og ekki gert ráð fyrir að stytti upp og lægi fyrr en á mánudag.
Þrátt fyrir undirbúning og mikinn vilja til að leggja land undir fót um helgina telur Sigurður, að veðrið muni setja áætlanir margra úr skorðum, þessa mestu ferðahelgi ársins. Hann segir erfitt að áætla hve margir muni halda að heiman og út á land næstu helgi en sé litið til síðustu ára megi áætla, að 40–50 þúsund bílar haldi úr höfuðborginni eða u.þ.b. 40% af bílaflotanum.
Egill Bjarnason, yfirlögregluþjónn í umferðardeild, segir erfitt að segja til um áhrif veðurs á umferðina en reynslan sýni að fólk sem hafi ákveðið að ferðast þessa helgi geri það. Fólk breyti þá helst um áfangastað og fari þangað sem spáin sýni besta veðrið.