Blóðbankinn hvetur virka blóðgjafa til þess að gefa blóð fyrir helgina. Segir í fréttatilkynningu að skapast hafi „mikil og rík þörf hjá sjúkrahúsunum vegna sjúkdóma, bráðra veikinda, aðgerða og slysa á síðustu dögum“.
Sigríður Ósk Lárusdóttir, forstöðumaður blóðsöfnunarferða Blóðbankans , hvetur virka blóðgjafa, sérstaklega í 0 mínus blóðflokki, til þess að koma fyrir helgi en aðrir sem ekki hafa gefið blóð áður eru velkomnir í næstu viku, þar sem nauðsynlegt er að stækka blóðgjafahóp bankans.
Þegar Blóðbankinn sendir áskorun af þessu tagi, þá eru ríkar ástæður að baki. Blóðbankinn sinnir heilbrigðisstofnunum um land allt og á þessum árstíma reynist Blóðbankanum oft erfitt að halda uppi nægum blóðhlutabirgðum, segir í fréttatilkynningu.
Blóðbankinn verður opinn til klukkan 19 í kvöld.