Fúsi flakkari tók sér far með salatblaði

Froskurinn víðförli.
Froskurinn víðförli.

Eldhússtarfsfólk á hóteli í miðborginni uppgötvaði óboðinn gest á þriðjudaginn, en þar var froskur sem leyndist í kassa af frisee-salati. Froskar þykja víða herramannsmatur, en þar sem þessi var varla einn munnbiti sáu kokkarnir aumur á honum. Þeir komu honum fyrir í krukku með vatni úr Reykjavíkurtjörn, en froskar eru mjög háðir vatni og röku umhverfi. Því næst sendu þeir hann til Náttúrufræðistofu Kópavogs þar sem honum var gefið nafnið Fúsi flakkari.

Að sögn Hilmars J. Malmquist forstöðumanns er Fúsi ungfroskur af tegundinni Bufo bufo, sem nefnd hefur verið Evrópukarta og mun vera algeng víða um álfuna. Salatið sem hann tók sér far með kom með flugi frá Hollandi, svo Fúsi mun eiga rætur að rekja þangað.

Litlum körtum stafar hætta af bílaumferð víða í Evrópu, svo að dýravinir hafa grafið göng undir vegi til að greiða þeim leið, eða jafnvel skipulagt vaktstöður og borið ungviðið yfir götur.

Fúsi á litla möguleika á að lifa af í náttúrunni á Íslandi, því hér eru vetur of kaldir og langir til þess að froskdýr geti sest að. Fúsi þarf þó ekki að hafa áhyggjur af umferðinni eða frostinu í vetur, því hann hefur fengið inni hjá Náttúrufræðistofu Kópavogs þar sem hann verður til sýnis.

Í hnotskurn
» Ef Fúsi nær að vaxa úr grasi undir verndarvæng Hilmars og starfsfólks hans er mögulegt að hann verði allt að 18 sentimetrar á lengd fullvaxinn.
» Með aldrinum verður húðin á honum blöðróttari og hann lærir að gefa frá sér illa þefjandi efni til að fæla í burtu óvini.
» Fúsi lifir á skordýrum, lirfum, köngulóm og ormum sem hann veiðir með klístraðri tungunni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert