Fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarráði Reykjavíkur gagnrýndu á fundi ráðsins í dag samning um leigu á skrifstofuhúsnæði á Höfðatogi þar sem fjölmörg svið og skrifstofur borgarinnar eiga að vera til húsa. Samkvæmt svari, sem lagt var fram á fundinum við fyrirspurn Samfylkingarinnar, er gert ráð fyrir því að kostnaður við leigusamninginn verði 4,7 milljarðar króna í 25 ár.
Í bókun Samfylkingarinnar segir, að leigusamningurinn hafi verið gerður án útboðs eða auglýsingar og kostnaður borgarinnar sé 186 milljónir á ári sem sé 76 milljónir meira en sömu stofnanir greiða nú fyrir húsnæðisaðstöðu sína.