Hitabeltisstormurinn Chantal gæti bjargað helginni

Ef veðurspár ganga eftir verða regnhlífar mesta þarfaþing um helgina.
Ef veðurspár ganga eftir verða regnhlífar mesta þarfaþing um helgina. mbl.is/Golli
Eftir Björgu Magnúsdóttur - bjorg@bladid.net
Þriðji hitabeltisstormur ársins á Atlantshafi hefur tekið á sig mynd rétt undan ströndum Massachusetts í Bandaríkjunum, samkvæmt sjónvarpsstöðinni WMGT-TV þar í landi. Hitabeltisstormur þessi ber heitið Chantal og veðurfræðingar stöðvarinnar spá því að þegar nær dragi helginni færi stormurinn sig fyrst að suðausturhluta Kanada, en þaðan í átt að Íslandsströndum. Þó spáir stöðin því að mestur vindur fari úr storminum fyrir verslunarmannahelgi en það sem eftir verði í honum muni dynja á útileguförum í íslenskri náttúru.

Trausti Jónsson veðurfræðingur segir fellibyljamiðstöðina í Miami hafa viðurkennt Chantal sem hitabeltisstorm, þó takmörkuð hætta stafi af honum, þar sem í yfirlitskortum sé hann þegar orðinn að lægð. Spurður að því hvort Chantal komi til með að hafa áhrif á helgarveðrið segir Trausti að svo geti verið. „Því hefur verið spáð lengi að lægð gangi yfir landið um verslunarmannahelgina sem mun að einhverju leyti éta upp hitabeltisstorminn, sem mun þó útvega lægðinni meira af hlýju og röku lofti en ella. Það getur verið að stormurinn valdi því að lægðin dýpki áður en hún kemst nær landinu, og hafi þannig jákvæð áhrif á okkur," segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka