Fjögur sérútbúin lögreglubifhjól tekin í gagnið - bylting fyrir umferðardeildina

Nýju hjólin eru af Yamaha-gerð og eru léttari en Harley …
Nýju hjólin eru af Yamaha-gerð og eru léttari en Harley Davidson-hjólin. mbl.is/Júlíus

Bílamiðstöð ríkislögreglustjórans setti í dag fjögur ný sérútbúin lögreglubifhjól í umferð sem sögð eru standast allar þær kröfur sem hægt er að gera til lögreglubifhjóla í dag. Hjólin eru m.a. útbúin tækjum til radarmælinga auk þess sem upptökubúnaði verður komið fyrir í þeim síðar í þessum mánuði, en slíkur búnaður hefur ekki verið áður á þeim hjólum sem lögreglan notar.

Um er að ræða hjól af Yamaha FJR-1300 gerð. Þau eru léttari en Harley Davidson bifhjólin sem lögreglan notar einnig. Yamaha-hjólin vega 265 kíló og eru 150 hestöfl. Agnar Hannesson, rekstrar- og þjónustustjóri Bílamiðstöðvar ríkislögregluembættisins, sagði í samtali við mbl.is að hjólin séu svipuð þeim löggæsluhjólum sem nágrannaþjóðir okkar eru að nota. Aðspurður segir Agnar fullútbúið hjól kosta um fimm milljónir kr.

Agnar segir að búnaður til hraðamælinga sé að finna í hjólunum og að sérstökum upptökubúnaði verði einnig komið fyrir í hjólunum í lok ágúst. Þannig geti lögreglumaður unnið einn á hjólinu. „Þetta er mikil bylting,“ segir Agnar og bætir því við að þetta gjörbreyti öllu fyrir umferðardeildina. „Nú ertu að mæta lögregluhjóli með radar og upptökubúnaði. Þetta er sama kerfi og er í bílunum,“ segir hann.

Árni Friðleifsson, starfandi aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, er mjög ánægður með hjólin. Hingað til hefur lögreglan haft til umráða sex bifhjól en nú verða þau 10. „Mótorhjólin hafa verið að nýtast okkur mjög vel í umferðarlöggæslu,“ segir Árni og bætir því að þetta muni efla umferðarlöggæsluna enn frekar. „Við getum nú verið enn sýnilegri og enn öflugri og það skiptir töluverðu að fá þessi hjól.“

Í byrjun næsta árs verða fjögur lögregluhjól til viðbótar tekin í notkun, og verða hjólin því alls átta á götum borgarinnar. Agnar segir þetta vera samvinnuverkefni ríkislögreglustjóraembættisins og samgönguráðuneytisins.

Radarmælingatæki eru í nýju hjólunum og síðar í þessum mánuði …
Radarmælingatæki eru í nýju hjólunum og síðar í þessum mánuði verður upptökubúnaði einnig komið fyrir í þeim. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert